Straumönd

Straumönd

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.

Útlit og atferli

Heimkynni straumandar eru straumharðar lindár og brimasamar strendur. Hún er smávaxin, hálsstutt og dökk kafönd með hátt enni og fleyglaga stél. Steggurinn er afar skrautlegur. Grunnliturinn er dökkblár og er hann alsettur hvítum, svartjöðruðum rákum. Síður og kollhliðar eru rauðbrúnar, vængir dökkir með lítt áberandi, stuttum, hvítum vængreitum, axlafjaðrir með hvítum langrákum. Steggur í felubúningi og ungfugl eru móskulegri en þó vottar fyrir litamynstri í þeim. Kolla er öll svarbrún, með hvíta bletti á hlustarþökum og milli augna og goggs, ljós á kviði. Goggur er stuttur, blýgrár, fætur grábláir (steggur) eða grænleitir (kolla). Augu eru brún.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.

Straumönd stingur sér á kaf í iðukasti.

Straumönd flýgur hratt með hröðum vængjatökum og veltum lágt yfir vatnsfleti. Hún flýgur sjaldan yfir land en fylgir ám og þræðir þá hverja bugðu árinnar og fer jafnvel undir brýr. Straumöndin er mjög fimur sundfugl og getur synt bæði í hörðum straumi og brimi og kafað eftir æti í hvítfyssandi iðuna. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið, svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar. Straumöndin sperrir oft stélið á sundi og rykkir til höfðinu. Hún er spök og félagslynd, er utan varptíma oftast í litlum þéttum hópum. Kollan sér um útungun og uppeldi unga, meðan steggurinn fer til sjávar til að fella flugfjaðrir, oftast upp úr miðjum júní.

Steggur gefur frá sér lágt blístur en kolla hrjúft garg, er þó yfirleitt þögul.

Straumandarpar á góðri stundu á Laxá í Mývatnssveit.

Straumendur við Tunguós á Snæfellsnesi.

Lífshættir

Straumöndin er dýraæta. Sumarfæða hennar er fyrst og fremst bitmýslirfur og púpur, sem hún kafar eftir í straumvatni, einnig rykmýs- og vorflugulirfur. Á sjó er fæðan ýmis smádýr: þanglýs, marflær, kuðungar og skerar.

Ungi fær salibunu með mútter á Laxá í Mývatnssveit.

Straumandarkolla með hálfstálpaða unga á Laxá í Mývatnssveit.

Straumönd heldur sig á sumrin við straumharðar lindár og útföll úr stöðuvötnum þar sem nóg er af bitmýi. Hreiðrið er á árbökkum eða í hólmum, vel falið milli steina eða í gróðri. Hún verpur 4–8 eggjum í dúnklætt hreiður, útungun tekur um 4 vikur og ungarnir eru lengi á ánni, þeir verða fleygir á 9–10 vikum. Utan varptímans dvelur straumöndin við brimasamar klettastrendur (brimdúfa).

Straumandarpar við Laxá í Laxárdal.

„Brimdúfur“ við Hafnir á Suðurnesjum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Straumöndin er staðfugl. Einu varpstöðvar hennar í Evrópu eru hér á landi en hún finnst annars austast í Síberíu, á Grænlandi og við norðanverða vestur- og austurströnd N-Ameríku. Hér finnst hún um allt land þar sem búsvæði hennar er að finna, lífríkar lindár. Oft gerir hún sér að góðu væna læki ef þar þrífst bitmý. Stöku sinnum sjást straumendur á lífríkum ám á veturna, eins og á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og Sogi. Varpstofninn er talinn vera 3000–5000 pör og vetrarstofninn um 14.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og á við um aðrar endur “Líkt og á við um aðrar endur kemur straumöndin ekki oft fyrir í íslenskri þjóðtrú þrátt fyrir skrautlegt yfirbragð og sérkennilega lífsháttu. Ef þú hefur þurrkað höfuð af straumandarstegg í fórum þínum á það að verja þig „öllu illu eðli og ónáttúru“. Þekkt er sagan af spurningu á prófi í barnaskóla nokkrum um miðja síðustu öld, þar sem spurt var hver væri fallegasti fuglinn. „Rétta“ svarið var straumönd og rangt var gefið fyrir önnur svör. Árið 1817 fórst áttæringur sem hét Straumönd með 12 manns innanborðs á leið frá Grímsey til lands. Nokkuð hefur verið skrifað og ort um þann atburð.

Straumönd þrautfleyg áir á,

uppheims brautum norðar.

Setin laut og sundfær á,

söngla í skauti storðar.

Úr Hörpu eftir Stephan G. Stephansson

Tjaldur

Tjaldur

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Tjaldur (Haematopus ostralegus)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja. Vaðfuglar helga sér óðal og verpa pörin stök. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum sem yfirleitt eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir.

Tjaldur við vatnið Þveit í Nesjum, Hoffellsjökull fjær.

Ungur tjaldur í Sandgerðisfjöru.

Útlit og atferli

Tjaldurinn er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er svartur um bak, höfuð og háls niður á bringu en hvítur að neðan. Á svörtum vængjunum eru hvít belti mjög áberandi. Stélið er hvítt með svörtum bekk og hvítur fleygur frá því upp á bak. Goggurinn er langur og rauðgulur, fætur bleikrauðir og sterkbyggðir. Augu eru hárauð. Á ungfugli er hvítur blettur á kverk, hann er móskulegri á lit en sá fullorðni og goggurinn er dökkur fremst.

Tjaldar á farflugi taka land í Mýrdal.

Tjaldspar fóðrar unga á ánamaðki á Seltjarnarnesi.

Tjaldur með unga á húsþaki í Ármúla, Reykjavík.

Tjaldur er hávaðasamur og félagslyndur fugl. Hann er kröftugur flugfugl en vængjatökin eru ekki djúp. Hann flýgur venjulega fremur lágt. Á vorin stíga tjaldar oft á tíðum sérkennilegan dans með miklum hljóðum, stundum kallaður blístursdans og eru þátttakendur í honum gjarnan þrír fuglar. Þetta er oftast nær staðbundið par og aðkomufugl, gjarnan nágranni og er dansinn óðalsbundinn. Tjaldurinn er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína, sem gerir það að verkum að hann getur orpið á stöðum þar sem enga fæðu er að hafa, eins og á húsþökum

Köll tjalds er hvellt og gjallandi blíbb en annars gefur hann frá sér margvísleg hljóð.

Tjaldur á Stokkseyri færir ungum sínum ánamaðk.

Tjaldur á hreiðri á Stokkseyri.

Lífshættir

Tjaldurinn grefur eftir sandmaðki í fjörunni, tekur krækling og aðra hryggleysingja og beitir löngum, sterklegum goggnum til þess arna. Inn til landsins eru ánamaðkar aðalfæðan. Hann leitar að fæðu með því að pota goggnum ótt og títt í mjúkt undirlagið.

Tjaldur verpur einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Eggin eru oftast þrjú, útungunartíminn er 24–27 dagar og ungarnir verða fleygir á 28–32 dögum. Hreiðrið er grunn dæld í sendinni jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum. Tjaldurinn heldur til í fjöru utan varptíma.

Þreyttir tjaldar nýkomnir til landsins í Eyrarbakkafjöru.

Tjaldar á fjörusteini í Hafnarfirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Tjaldur er að mestu farfugl. Hann var áður sjaldgæfur á Norður- og Austurlandi en hefur náð þar fótfestu á síðustu áratugum. Landnámið stendur hugsanlega enn yfir, t.d. á Ströndum, en þar fjölgaði fuglum verulega á árunum 1995 til 2007. Varpstofninn er talinn vera 10.000–20.000 pör. Meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin en um 5.000–10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð, svo og á Suðausturlandi. Heimkynni tjalds eru annars mjög víða við strendur Evrópu og austur um meginland Asíu, austur að Kyrrahafi.

Þar sem tjaldi hefur fækkað víða, er hann nú á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og á Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um tjaldinn. Í norskri þjóðtrú er hann vorboði og spáfugl um veðurfar komandi sumars. Jafnframt sagði hann fyrir um hjónabönd og barneignir. Hann er þjóðarfugl Færeyinga og tákn um sjálfstæðisbaráttu þeirra. Þar er hann einnig vorboði og miða bæði Færeyingar og Norðmenn við komudaginn 12. mars. Hann er jafnframt vorboði víða hérlendis, þegar tjaldurinn heyrist fyrst kalla að næturlagi í lok mars er vorið í nánd.

Rauðfættur fuglinn í fjörunni,

hann kann ekki að kreppa sig í körinni,

eingan ber hann ótta fyrir örinni,

ekki heldur tekur hann á tjörunni,

svo snillilega sneiðir hann hjá snörunni.

Í hámálinu hreykir hann sér,

heyrast má þar skvaldur,

svartan kufl á baki ber

blóma dreginn faldur.

Nefið rautt við nasaker

nú er þetta tjaldur.

Þulubörnin þakki mér,

að þessu er ég valdur.

 

Fuglinn í fjörunni,

hann heitir tjaldur.

Það er svo gott að verja það,

sem maður er ekki valdur.

Fuglinn í fjörunni.

 

Fuglinn í fjörunni,

fullur er hann með galdur.

Skjóttu’ hann ekki’ á helgum degi,

því hann heitir tjaldur –

þar sem öðlíngar fram ríða.

Úr Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Jón Árnason og Ólafur Davíðsson 1887–1903.

 

Vappar tjaldur, vellir spói,

verpir í broki mýrispýta.

Bráðum kveikir fenjaflói

fífublysið mjallahvíta.

Úr ljóðinu Á vordegi eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

 

Enginn í eyðidal

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.

Aðeins gróður. Gróður upp í háls.

 

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.

Aðeins rústir. Rústir tveggja bæja.

 

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.

Aðeins ein kirkja. Kirkja með krosslausum turni.

 

Þegar komið er í eyðidal er enginn.

Aðeins þú. Aðeins þú sjálf

og hundspakur tjaldur við læk.

 

Þegar komið er í eyðidal er enginn

fyrir utan tjaldinn og þig

 

og tvo menn uppi í kirkjuturni.

Þeir negla kross á kollóttan turninn

og fylla dalinn af höggum.

Steinunn Sigurðardóttir

 

Eyrugla

Eyrugla

Texti: Jóhann Óli Hilmarsson. Myndir: Jóhann Óli og Alex Máni Guðríðarson.

Eyrugla (Asio otus)

Eyruglan er ánægjuleg viðbót við fátæklega íslenska uglufánu. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) hér á landi, miðað við grannlöndin, er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru alfæða flestra ugla.

Útlit og atferli

Eyruglan er meðalstór ugla, náskyld og mjög lík branduglu. Hún er auðgreind á löngum fjaðraeyrum sem sjást aðeins þegar fuglinn situr. Eyrun hafa ekkert með heyrn fuglsins að gera. Andlitið er kringlóttara en á branduglu og fjaðrakransar rauðgulir. Augun eru appelsínugul, ekki gul eins og í branduglu. Rákóttir vængbroddar eru neðan á vængjum á eyruglu en þeir eru svartir á branduglu; vængbroddarnir og rákóttur kviður aðgreinir fuglana á flugi. Annars er eyruglan í felulitum og fellur vel inn í umhverfi sitt þegar hún situr á trjágrein.

Eyrugla pírir augun í sólskini. Hún er eindreginn skógarfugl.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Eyrugla á óðali sínu.

Lífshættir

Eyrugla er skógarfugl, hún notar oftast gömul hreiður frá öðrum fuglum eins og skjóum, krákum og hröfnum. Hér á landi verpa uglurnar líklega mest á jörðu niðri, þar sem þær hafa ekki aðgang að hreiðrum fyrrnefndra fugla. Þær hafa einnig orpið í tilbúnar hreiðurkörfur sem settar hafa verið upp fyrir þær. Hvor tveggja er þekkt erlendis. Þá hafa þær líka orpið í gjárveggjum. Eggin eru oftast 4–6 og útungunartími er 25–30 dagar. Ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Karlarnir helga sér óðal í mars og er aðalvarptíminn um mánaðamótin apríl-maí. Aðalfæða eyrugla er hagamýs, en þær taka einnig smáfugla og fuglsunga. Eyruglan er meiri náttfugl en brandugla.

Sameiginlegur hvíldarstaður (e. roost) á veturna er eitt af sérkennum eyruglu, en slíkt tíðkast ekki hjá öðrum uglum sem sofa langoftast stakar. Hér á landi hafa fundist slíkir hvíldarstaðir og voru til dæmis á annan tug eyrugla í einu tré í Grasagarðinum í Laugardal fyrir nokkrum árum. Uglur sofa aðallega á daginn og því er ekki hægt að tala um náttstaði eins og hjá flestum fuglum.

Eyrugla á hvíldarstað í fjárhúsi í Grafningi. Hún hélt þar til allan veturinn.

Eyrugla sem gerði sér hreiður í gjárvegg.

Eyrugla með aðalbráð sína, hagamús.

Landnám

Fram undir síðustu aldamót var eyruglan nær árviss gestur eða hrakningsfugl hér á landi, aðallega að haust- og vetrarlagi, oftast í nóvember og desember og um land allt. Fyrsta varpið var staðfest árið 2003, þegar Morgunblaðið birti mynd á baksíðu af ugluunga sem sagður var brandugla. Glöggir menn sáu strax að fuglinn var með appelsínugul augu en ekki gul og hlaut því að vera eyrugluungi. Myndin var tekin við sumarbústað á Suðurlandi. Að sögn heimafólks hafði uglan líklega orpið þarna í um þrjú ár, en óljósar fregnir höfðu verið um eyrugluvarp á þessum slóðum frá því rétt fyrir aldamótin.

Stopult hefur verið fylgst með landnámi eyruglunnar, en einhver varptilvik hafa þó verið staðfest flest ár. Árið 2011 var gert átak í að kanna varp eyruglu og fundust þá 5 eða 6 pör með unga. Sumarið 2010 fannst ungi í Aðaldal og er það í eina þekkta varpið utan Suður- og Suðvesturlands. Árið 2018 hóf Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur, rannsókn á íslenskum uglum og eru upplýsingarnar hér að hluta til fengnar frá honum. Vorið 2019 fundust 11 eyrugluóðul og var orpið á 9 þeirra. Öll voru á Suðurlandi nema eitt á Innnesjum. Fremur brösuglega gekk hjá uglunum að koma ungum á legg, væntanlega vegna þurrka, og áttu margir fuglar erfitt með að ná í æti þess vegna. Árið 2018 var einnig afkomubrestur hjá eyruglum og hann þá rakinn til mikilla rigninga um sumarið.

Þó svo að eyruglan sé mun laumulegri en branduglan er auðveldast að staðfesta varp hennar með því að hlusta vel eftir henni á síðkvöldum; síðla vetrar tilkynna karlarnir yfirráð sín yfir óðulum með söng: úhh – úhh – úhh. Hljóðið sem stálpaðir ungar gefa frá sér þegar þeir betla mat er áberandi, sérstaklega þegar foreldrarnir eru nærri. Minnir það afar mikið á lóukvak en er málmkenndara. Þetta kvak þeirra heyrist mest á síðkvöldum eftir miðjan júní.

Eyrugla er á válista Náttúrufræðistofnunar sem tegund í nokkurri hættu (VU). Tökustaðir ljósmynda eru ekki gefnir upp af verndarástæðum, en þær eru allar teknar á Suðurlandi.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Eyrugluungi. Hann er fullvaxinn, en ekki enn að fullu fiðraður og vantar enn fjaðraeyrun.

Útbreiðsla og stofnstærð

Eyruglan er útbreiddur varpfugl um allt norðurhvel jarðar: um miðbik N-Ameríku, Evrópu og N-Afríku austur um alla Asíu. Hún er staðfugl nema nyrst og líklega eru íslensku eyruglurnar staðfuglar eða að hluta til farfuglar eins og raunin er um branduglu. Þeirri spurningu og fleirum verður væntanlega svarað á næstu árum. Stofninn gæti verið 50–100 fuglar.

 

Urtönd

Urtönd

Urtönd (Anas crecca)

Urtöndin telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og gæsum, þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Íslenskum öndum er skipt í buslendur, kafendur og fiskiendur.

Útlit og atferli

Urtönd er minnsta öndin sem verpur hér og raunar minnsta önd Evrópu. Hún er afar snör í snúningum og stygg. Í fjarska virðist steggurinn vera dökkgrár með dökkt höfuð. Hann er dökkrauðbrúnn á höfði og hálsi, með græna, ljósbrydda geira frá augum og aftur á hnakka. Bringan er gulleit með dökkum doppum, búkur að öðru leyti grár að undanskildum svörtum gumpi og undirgumpi, með rjómagulum flekkjum á hliðum. Svartar og hvítar axlafjaðrirnar mynda áberandi rákir á hliðum þegar vængir eru aðfelldir. Í felubúningi á fellitíma er steggur eins og kolla, en dekkri og jafnlitari að ofan. Kollan er gulbrúnflikrótt, eins og dvergvaxin stokkandarkolla, með dökkan koll og augnrák. Bæði kyn eru með hvítan kvið og dökkgræna vængspegla með áberandi hvítum framjaðri. Goggurinn er blágrár, kollan er oft með gult á skoltröndum. Fætur eru gráir með dekkri fitjum, augu brún.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Urtandar- og stokkandarkollur í Fossvogsdal. Hinn mikli Stærðarmunurinn er sláandi.

Steggur gefur frá sér lágt og flautandi hljóð, garg kollu er hvellt og hrjúft.

Þessi litli, kviki og hraðfleygi fugl er hálfgerður náttfugl og mest á ferli í ljósaskiptunum og á nóttunni. Oft sjást urtendur fljúga lágt í þéttum, litlum hópum og svipar þá til vaðfugla. Urtöndin hefur sig bratt til flugs, er lítil og þéttvaxin með hnöttótt höfuð, stuttan háls og mjóa vængi. Hún er félagslynd utan varptíma en afar stygg og felugjörn.

Lífshættir

Fæðuval og fæðuhættir er svipaðir og hjá öðrum buslöndum. Urtöndin etur fræ og græna plöntuhluta, einnig ber og á varptíma er próteinrík dýrafæða uppistaðan.

Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.

Urtandarhreiður í Flatey á Breiðafirði.

Urtandarkolla með unga í Flatey á Breiðafirði.

Á sumrin er kjörlendi urtandar vot svæði á láglendi, t.d. grunnar tjarnir, skurðir, kílar, lygnar lindár, blautar mýrar og flóar. Hreiðrið er svipað og hjá öðrum buslöndum, venjulega vel falið í gróðri. Eggin eru 8–11, álegan tekur 21–23 daga og ungarnir verða fleygir á 25–30 dögum. Urtöndin heldur sig á veturna bæði á grunnum vogum eða víkum á sjó og á ferskvatni inn til landsins þar sem ekki leggur.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Urtönd er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl en finnst einnig í gróðurvinjum á hálendinu. Hefur aðallega vetursetu á Bretlandseyjum, einkum Írlandi, en fer einnig víðar um V-Evrópu. Yfir 1000 fuglar eru staðfuglar og dvelja aðallega á Suður- og Suðvesturlandi yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða í Evrópu og Asíu.

Urtandahópur í friðlandinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Skyldar tegundir – murtönd

Murtönd (Anas carolinensis) er amerísk frænka urtandarinnar. Hún var lengi talin undirtegund urtandar, en var í kringum aldamótin síðustu gerð að sértegund. Munurinn er enda lítill, murtönd er með hvíta skellu eða þverrönd fremst á síðunni, meðan urtöndin er með langrák ofan við síðuna á aðfelldum væng. Kollan verður ekki greind frá urtönd. Murtandarsteggir sjást venjulega með urtöndum.

Murtandarsteggur á Seltjarnarnesi.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er um urtöndina í íslenskri þjóðtrú, eins og raunin er um endur almennt. Endur voru helst taldar veðurvitar og voru þær jafnvel kallaðar spáfuglar vindanna. Sömuleiðis virðast skáld ekki hafa haft áhuga á að yrkja um þessa kviku önd, hinn tregafulli söngur villiandarinnar kveður ekki upp úr með tegundina.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Flórgoði

Flórgoði

Flórgoði (Podiceps auritus)

Útlit og atferli

Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Hann minnir á smávaxna önd, en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum, sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Kynin eru sviplík. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi. Goggurinn er svartur og stuttur, fætur gráir með sundblöðkum á tánum. Hárauð augu sitja framarlega á höfðinu.

Um varptímann gefur hann frá sér sérkennileg hljóð, hvell og ískrandi.

Flórgoðahjón á Vestmannsvatni.

Ungur flórgoði í Mývatnssveit. Vetrarbúningur fullorðinna fugla er svipaður.

Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan, en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum. Getur verið árásargjarn, telji hann sér ógnað og jafnvel svo, að hann ræðst á mink, sem nálgast hreiðrið.

Flórgoði hefur sig til flugs með tilhlaupi á Vestmannsvatni.

Flórgoðar berjast um yfirráðasvæði í Mývatnssveit.

Flórgoðahjón á góðri stundu við hálfbyggt hreiður á Vestmannsvatni.

Flórgoði með stóran unga á bakinu í Mývatnssveit.

Lífshættir

Á sumrin er aðalfæða flórgoðans hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr.  Flórgoðar eta talsvert eigið fiður og er það talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.

Flórgoði verpur við gróðursæl vötn og tjarnir, oft í dreifðum byggðum. Hreiðrið er fljótandi pallur, gerður úr rotnandi gróðri og festur við stöngla, oftast í breiðum af ljósastör, fergini eða öðrum vatnagróðri. Eggin eru 3–5, álegan er 22–25 dagar og ungarnir eru allt að tvo mánuði að verða fleygir. Á veturna sjást flórgoðar helst í skjólsælum víkum og vogum á sjó.

Flórgoðahjón dansa sefdans á Vestmannsvatni.

Flórgoði á flothreiðri á Vífilsstaðavatni. Þar hafa birkigreinar verið lagðar út, svo fuglinn eigi auðveldara með að festa fljótandi hreiðrið.

Flórgoðahjón fæða unga sína á hornsíli í Mývatnssveit.

Útbreiðsla og stofnstærð

Flórgoði var áður algengur varpfugl á láglendi í flestum landshlutum nema á Vestfjörðum. Honum fækkaði mikið upp úr 1950, vegna framræslu votlendis og landnáms minks að því að talið er. Góðu heilli er stofninn nú á uppleið aftur og er talinn vera um 1000 pör. Flórgoði er tíðastur í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Héraði. Nærri helmingur stofnsins er í Mývatnssveit. Meirihlutinn hefur vetursetu á sjó í Norðvestur-Evrópu, kringum Bretlandseyjar og við Frakklandsstrendur; nokkrir tugir halda sig í Hvalfirði og víðar á Suðvesturlandi, svo og í Berufirði og víðar á Suðausturlandi, á veturna. Verpur í Skotlandi, Skandinavíu og síðan austur um Asíu og austanverða N-Ameríku.

Þjóðtrú og kvæði

Íslensk þjóðtrú hefur sneitt hjá flórgoðanum og sömuleiðis skáld, sem hafa ort um fugla. En gamalt heiti á honum er sefönd, áður fyrr hélt fólk hann vera önd.

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Langvía

Langvía

Langvía (Uria aalge)

Langvía telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og allir af sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa allir einu eggi nema teista.

Langvía á flugi við Látrabjarg.

„Hringvía” í Látrabjargi.

Stuttnefja til vinstri og langvía til hægri, saman á syllu.

Útlit og atferli

Langvía er algengur og fremur stór svartfugl sem líkist mjög stuttnefju. Á sumrin er langvían brúnsvört að ofan en hvít að neðan. Dökkar kámur og flikrur á síðum eru einkennandi. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á litarafbrigðinu „hringvíu“ er hvítur hringur kringum augu og hvítur taumur aftur og niður úr honum. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp eftir kverk, hálshliðum og vöngum, en svört rák gengur aftur frá augum. Goggur er svartur, mjór og oddhvass. Grunnlitur fóta er svartur og augu eru svört.

Svipar í mörgu til álku og stuttnefju. Höfuðlag er þó annað, langvía er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá stuttnefju á kámugum síðum og því að engin hvít rák er á gogghliðum. Er afar félagslynd.

Gefur frá sér hávært, langdregið sarghljóð um varptímann.

Langvía í vetrarbúningi í Þorlákshöfn.

Lífshættir

Langvían kafar af yfirborði eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan er síli og loðna, en það fer nokkuð eftir landshlutum hvaða fæða er helst í boði. Étur einnig síld og smákrabbadýr.

Langvíur með unga í Skálasnagabjargi.

Svonefndur Gullblettur í Skrúðnum. Þetta er óvenjulegur varpstaður, fuglarnir verpa ofan á eynni, í urð.

Langvía verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum eða ofan á stöpum og klettaeyjum. Er annars á sjó, bæði á grunn- og djúpsævi. Verpur á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Eggið er aðeins eitt og er álegutíminn 32–33 dagar. Er oft í stórum bælum og breiðum. Ungar yfirgefa byggðina snemma eins og hjá álku og stuttnefju. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum. Björgin tæmast síðla júlímánaðar.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stór hluti íslenska stofnsins verpur í þremur stærstu fuglabjörgunum, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi. Merkingar með gagna-(dægur-) ritum undanfarin ár sýna, að fuglar merktir í Látrabjargi hafa vetursetu vestur og suðvestur af landinu, m.a. við Grænlandsstrendur og suður af Grænlandi. Fuglar merktir á Langanesi og við Skjálfanda hafa vetursetu norður og austur af landinu. Heimkynni langvíu eru við norðanvert Atlantshaf og Kyrrahaf, í Atlantshafi verpur hún allt norður til Svalbarða og suður til Portúgals.

Veiðar og vernd

Langvía hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Langvíum fækkaði um 30% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 1,6% á ári. Endurteknar talningar á fjórum stöðum árið 2009 sýndu áframhaldandi fækkun. Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2017 sýndu enn áframhaldandi fækkun. Langvía er því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu á nýlegum válista Náttúrufræðistofnunar (2018). Eggjataka er þó enn stunduð á nokkrum stöðum.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú segir fátt um langvíuna, en trúin tekur oft svartfuglana og hegðun þeirra saman. Það er helst að hún og þeir tengist veðurútliti, viti fyrir óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Hún boðar einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla, sem og hvali, til að finna fiskitorfur.

Háubæli í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Bekkirnir í bjarginu eru þétt setnir af langvíu og ritu.

Lítið hefur verið ort um langvíuna gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar, eins og þessi húsgangur úr Eyjum sýnir, en mynd fylgir með af Háubælum:

Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.