Flóran í Safnahúsinu

Eggert vid Florumyndina

Eggert Pétursson listmálari við mynd sína frá 1985: Flóra Íslands.

Í Safnahúsinu við Hverfisgötu getur nú að líta frummynd Eggerts Péturssonar, listmálara, af FLÓRU ÍSLANDS, sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf fyrst út á veggspjaldi 1985. Veggspjaldið er nú komið út á ný, í fjórða sinn, enda fyrri útgáfur löngu uppseldar.

Myndina, sem sýnir 63 tegundir íslenskra blómplantna, málaði Eggert með vatnslitum (gvass) á árinu 1985 að beiðni stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags en hann hafði áður myndskreytt bókina Íslensk flóra með litmyndum eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing sem kom út árið 1983. 1989 sýndi Eggert í fyrsta sinn olíumálverk þar sem myndefnið var sótt í jurtaríkið.  Hann er nú meðal dáðustu listamanna þjóðarinnar – ekki síst fyrir einstaka túlkun á hinu smáa og fíngerða í íslenskri náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru í Safnahúsinu: Bryndís Marteinsdóttir, stjórnarmaður HÍN, Kristín Svavarsdóttir fyrrverandi formaður HÍN, Rannveig Magnúsdóttir, í ritstjórn Náttúrufræðingsins, Kristján B. Magnússon, Crymogeu, Eggert Pétursson, listmálari og Hilmar Malmquist, forstjóri Náttúruminjasafnsins.

Dagur íslenskrar náttúru í Safnahúsinu: Bryndís Marteinsdóttir, stjórnarmaður HÍN, Kristín Svavarsdóttir fyrrverandi formaður HÍN, Rannveig Magnúsdóttir, í ritstjórn Náttúrufræðingsins, Kristján B. Magnússon, Crymogeu, Eggert Pétursson, listmálari og Hilmar Malmquist, forstjóri Náttúruminjasafnsins.

Eggert var viðstaddur þegar endurútgáfu veggspjaldsins FLÓRU ÍSLANDS var fagnað á Degi íslenskrar náttúru 16. september s.l. í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

CRYMOGEA /FOLDA annaðist nýja prenthönnun verksins og sá um útgáfuna fyrir Náttúruminjasafnið og Hið íslenska náttúrufræðifélag.

Veggspjaldið er 70×50 sm á stærð. Það fæst í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr.

Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is

 

Flóra Íslands á Degi íslenskrar náttúru

Margir kannast efalaust við Flóru Íslands, vatnslitamyndina sem Eggert Pétursson listmálari málaði að beiðni Hins íslenska náttúrufræðifélags og gefin var út á veggspjaldi 1985. Nú að  30 árum liðnum hefur Náttúruminjasafn Íslands haft forgöngu um að gefa veggspjaldið út í fjórða sinn, en frummyndin sem er í eigu HÍN, er í vörslu safnsins.

Flóra Íslands 70x50 cm, útgefandi CRYMOGEA / FOLDA.

Nýja veggspjaldið, Flóra Íslands er 70×50 cm að stærð, útgefandi er CRYMOGEA/FOLDA.

Veggspjaldið prýða 63 tegundir íslenskra háplantna sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir). Til hliðar við myndina eru íslensk, ensk og latnesk tegundarheiti.

Frumgerð Eggerts er nú sýnd opinberlega í fyrsta sinn á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og er gerð skil í sýningarskrá á bls. 67. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september verður kynning á spjaldinu í Lestrarsal Safnahússins kl. 12 á hádegi. Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn og er að vinna sér fastan sess í haustdagskrá landans, eins og sjá má af því að margir viðburðir eru í boði að þessu sinni.

Veggspjaldið er til sölu í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr. Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is

 

 

Fjársvelt höfuðsafn

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

„Fjárlagafrumvarpið veldur miklum vonbrigðum. Enn eitt árið, það níunda í röð frá því að safnið var stofnað, virðist ríkisvaldið ætla að bregðast skyldu sinni gagnvart Náttúruminjasafni Íslands. Það er þó ekki öll nótt úti enn, því umræður á Alþingi um fjárlögin eru eftir og ég vænti þess að þær breyti stöðunni.“  

 3% lækkun frá 2014

Þetta segir Hilmar J. Malmquist, forstöðurmaður Náttúruminjasafnsins en safnið fær slæma útreið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Höfuðsafni þjóðarinnar í náttúrufræðum eru ætlaðar 25,7 m.kr. til starfseminnar á næsta ári sem er um 3% lækkun miðað reikning ársins 2014 (26,4 m.kr.). Framlög til annarra safna sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka hins vegar á bilinu 9–18% miðað við ríkisreikning 2014. Þær hækkanir eru nær allar umfram launa- og verðlagshækkanir og taka flestar til þess að bæta við stöðugildum og styrkja rekstrarstöðu safnanna. Sem dæmi má taka að fjárveiting til Listasafns Íslands, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins, hækkar um 13% miðað við reikning ársins 2014 (206,1 m.kr.) og um 11% miðað við fjárlög 2015 (210.2 m.kr.). Framlag til þriðja höfuðsafnsins, Þjóðminjasafns Íslands sem heyrir undir forsætisráðuneytið, hækkar um 25% miðað við reikning ársins 2014 (533 m.kr.) og um 5% miðað við fjárlög 2015 (635,8 m.kr.).

Hilmar bendir á að skv. frumvarpinu sé beiðni um að styrkja starfsemi Náttúruminjasafnsins hafnað, en óskað var eftir fjölgun um eitt stöðugildi, starf sérfræðings sem m.a. ætlað að halda utan um rafræn gagnaskrármál, varðveislusamninga og útlán á safngripum. Auk forstöðumanns hefur til þessa ekki verið svigrúm nema fyrir einn starfsmann í 25% stafshlutfalli. Sá starfsmaður gegnir starfi ritstjóra tímaritsins Náttúrufræðingsins sem Náttúruminjasafnið gefur út í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélagi. Félagið greiðir helming launa ritstjórans til móts við Náttúruminjasafnið. 

Framlagið hefur rýrnað um nær helming á starfstíma safnsins

„Fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa frá stofnun safnsins árið 2007 verið í skötulíki og hamlað mjög allri starfsemi,“ segir Hilmar. „Árlegt rekstrarfé síðastliðin níu ár hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa launavísitala, neysluvísitala og byggingavísiala hækkað um 4552%.  Þetta jafngildir nær helmings raunlækkun á fjárveitingum! Öllum óskum um hækkun fjárheimilda í grunnrekstrarlíkani safnsins, hvort sem er vegna nýrra stöðugilda, tækjakaupa, hækkun á húsaleigu eða þátttöku í sýningum, hefur verið hafnað.“ 

Ríkisendurskoðun hefur í tvígang, fyrst árið 2012 og aftur í maí s.l., fjallað um málefni Náttúruminjasafnsins og bent Alþingi á að fjárheimildir til höfuðsafnsins séu óásættanlegar og hindri safnið í að uppfylla lögbundar skyldur sínar.

Skýrslur Ríkisendurskoðunar eru aðgengilegar hér:

Natturuminjasafn Íslands. Skýrsla til Alþingis. Ríkisendurskoðun. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands. Eftirfylgniskýrsla. Ríkisendurskoðun. 2015.

Góður gestur í Loftskeytastöðinni

Rektor Háskóla Íslands, dr. Jón Atli Benediktsson, heimsótti skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í Loftskeytastöðinni á dögunum og heilsaði upp á mannskapinn. Húsaleigusamningur milli Náttúruminjasafnsins og Háskólans var undirritaður í júlí s.l. en Háskólinn tók við rekstri og ábyrgð hússins úr hendi Þjóðminjasafns Íslands í mars sem leið. Náttúruminjasafnið hefur haft afnot af Loftskeytstöðinni síðan í mars 2010.

Rektor og HJM_1

Dr. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands (t.h. ) og dr. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Heimsókn rektors til Náttúruminjasafnsins í Loftskeytastöðina 26. ágúst 2015.

Í heimsókn rektors var m.a. rætt um samstarf milli stofnananna, en á milli þeirra liggur gamalgróinn og sterkur þráður. Hugmyndir um formlegt samstarf og tengsl Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og forvera safnsins hafa lengi verið til umræðu, allt frá öndverðri 20. öld. Auk Háskólans og Náttúruminjasafnsins hefur Reykjavíkurborg verið aðili að málinu í ófá skipti. Um sögu þessara samskipta má lesa í eilítilli samantekt hér: Saga HI og NMSI_HJM_29.05.2015.

Margvísleg rök hníga að nánu samstarfi milli Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands:

  • Í Háskólanum eru stundaðar grunnrannsóknir á náttúru Íslands og í safnafræðum á breiðum grundvelli sem aðrar rannsóknastofnanir sinna ekki. Þessar rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins. Þá býr Náttúruminjasafnið yfir mannauði og safnkosti sem gagnlegur er fyrir rannsóknir og kennslu í Háskólanum.
  • Náið samstarf við Háskólann er æskilegt fyrir Náttúruminjasafnið vegna mikilvægis akademískrar nálgunar í efnistökum sýningarhalds og við miðlun á fróðleik og þekkingu um náttúruna.
  • Bæði Háskólinn og Náttúruminjasafnið hafa ríkum skyldum að gegna við miðlun á fróðleik um náttúru, en með ólíkum hætti þó. Upplýsingamiðlun Náttúruminja-safnsins byggist í meira mæli á sýningahaldi og almenningsmiðari upplýsingaveitu en Háskólinn beinir kröftum sínum á þessu sviði meira að hinu akademíska fræðasamfélagi.

Þegar hefur verið efnt til samstarfs milli Háskólans og Náttúruminjasafnsins og er mikilvægt að halda þeim tengslum og auka við þau. Gerður hefur verið samstarfssamningur við Líffræðistofu um rannsóknir á forndýrafræði rostunga (Samkomulag um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015) og nýlega var undiritaður samstarfssamningur við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um samstarf á sviði safnfræða í Félags- og mannvísindadeild (Samkomulag NMSI $ Felagsvisindasvids_08.06.2015).

Steindepill

Steindepill

Steindepill16vSPÖR

Þá ertu hérna
eyðimarkafari.
Þér ber ég kveðju.

En vel er mér ljóst
að aldrei
þarfnast þú okkar
sem eigum þó allt
undir farnaði þínum og gleði.

Þér ber ég kveðju . .
hún er frá kvöldroðastúlku.

Steindepill, steindepill
á þessari stundu
þolir bringa mín engan söng
nema þinn.

Stefán Hörður Grímsson

Steindepill19at

Útlit og atferli

Steindepillinn (Oenanthe oenanthe) er litli frændi þrastanna. Þessi kviki spörfugl, sem er algengur í grýttu og lítt grónu landi, er ívið stærri og þreknari en þúfutittlingur. Karlfugl í sumarbúningi er blágrár á kolli, afturhálsi og baki, vængir svartir. Svört gríma er um augu og brúnarák hvít. Hann er ljósbrúnn á framhálsi, gulari á bringu og kviði. Síðsumars fer hann að líkast kvenfugli æ meir. Kvenfugl er dauflitari en karlfugl, mógrá á baki og að mestu án litamynsturs á höfði. Ungfugl og kvenfugl að vetri eru ljósari að ofan. Steindepill er ávallt með einkennandi stélmynstur, gumpur og stél eru hvít en svartur stélsendi og stutt, svört stélrák mynda öfugt „T“ aftast á stélinu. Goggurinn er grannur og svartur, fætur svartir, augu dökkbrún.

Steindepill25a

Steindepillinn er kvikur og eirðarlaus, flýgur lágt og tyllir sér oft með rykkjum og hneigingum og sveiflar vængjum og stéli. Er venjulega einfari eða í smáum hópum.

Lífshættir

Steindepill hleypur og skoppar eftir skordýrum og áttfætlum í opnu landi, stekkur jafnframt eftir flugum.  Á fartíma taka þeir þangflugur og fleira í fjörum, sækja eitthvað í ber og fræ.

Steindepill verpur í grýttu landi, urðum, hlöðnum veggjum, mólendi, hraunum o.þ.h., mest á láglendi. Hreiðrið er ofin karfa, staðsett í holu eða sprungu milli steina. Verpur stundum tvisvar á sumri. Utan varptíma er hann gjarnan í fjörum, ræktuðu landi og mýrum. Hann er mest áberandi síðsumars, eftir varptímann. Þá geta ungir steindeplar sést á ólíklegum stöðum, eins og húsagörðum og svalahandriðum.

Steindepill 14

Heimkynni og far

Steindepillinn er útbreiddur varpfugl á norðurhveli jarðar, sérstaklega í Evrópu og Asíu, en einnig í Alaska, NA-verðu Kanada og Grænlandi. Steindeplar sem verpa á Grænlandi koma hér við vor og haust. Íslenskir steindeplar hafa vetursetu í V-Afríku, sunnan Sahara. Engir merktir fuglar hafa þó endurheimst þar, svo við vitum ekki nákvæmlega hvar vetrarstöðvarnar eru. Það er talið víst, að steindepill sé sá íslenski spörfugl, sem ásamt maríuerlu flýgur fugla lengst í farflugi.

Steindepill24a

Þjóðtrú og sagnir

Steindepils er að nokkru getið í íslenskri þjóðtrú. Hann gat valdið júgurmeini í ám og kúm, ef þær stigu á hreiður hans. Jafnframt áttu fingur barna að stirðna eða kreppast, ef þau snertu hreiður hans. Þetta er reyndar hæpið, því hann velur hreiðrinu oftast stað á óaðgengilegum stöðum. Skýringin á farflugi steindepils var sú, að hann lægi í dvala frá krossmessu á hausti (14. september) til krossmessu á vori (3. maí). Steinklappa er heiti sem er tilvísun í hljóð fuglsins.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.