Örn við Öxará
Örn við Öxará
Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi. Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms.
Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér.
Eins og við skýrðum frá í síðustu viku hefur árbotninn verið þéttsetinn urriðum í leit að heppilegasta makanum allan októbermánuð. Meira um þingvallaurriðan og hrygninguna í Öxarárstofninum hér.
Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum