Örn við Öxará

Örn við Öxará

Haförninn var áður við Þingvallavatn eins og örnefnið Arnarfell við austurhluta vatnsins vitnar um. Þó örnum hafi fjölgað verulega þá eru þeir enn sjaldséð sjón á Lögbergi. Ljósm. TSJ.

Örn við Öxará

 Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi.  Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og  Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms. 
Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér. 

Haförninn settist beggja vegna árinnar og skoðaði aðstæður á riðunum. Ljósm. TSJ.
Örninn settist í klettana í Almannagjá en ernir sitja löngum stundum grafkyrrir og stara fránum augum yfir veiðilendur sínar. Ljósm. SÞT.
Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Eins og við skýrðum frá í síðustu viku hefur árbotninn verið þéttsetinn urriðum í leit að heppilegasta makanum allan októbermánuð. Meira um þingvallaurriðan og hrygninguna í Öxarárstofninum hér.

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

Stormmáfur

Stormmáfur

Stormmáfur (Larus canus)

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þetta eru dýraætur sem lifa aðallega á sjávarfangi en einnig á skordýrum, úrgangi, fuglsungum, eggjum og fleiru. Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar, en farflug kríunnar er hið lengsta sem þekkist meðal fugla. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið fljótlega eftir klak. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).
Fullorðinn stormmáfur á Akureyri.
Fullorðinn stormmáfur í vetrarbúningi á Reykjavíkurtjörn.
Stormmáfur á 1. vetri við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Útlit og atferli

Stormmáfur er ekki ólíkur silfurmáfi en mun minni, er á stærð við ritu. Hann er ljósgrár að ofan, vængbroddar svartir með hvítum doppum, annars hvítur á fiður. Höfuð er brúnflikrótt á veturna, líkt og hjá stórum máfum. Ungfugl er grábrúnflikróttur með svartan stéljaðar, brúnt bak verður blágrátt strax á fyrsta hausti. Fuglar á fyrsta vetri eru hvítari á höfði og að neðan, með grátt bak og axlafjaðrir, yfirvængir eru brúndröfnóttir með dökkum flugfjöðrum. Þeir lýsast síðan og á öðrum vetri eru þeir svipaðir fullorðnum fuglum, hafa þá misst svarta stélbandið en handflugfjaðrir og vængþökur þeirra eru dekkri.

Goggur er grannur og fremur stuttur, gulleitur, enginn rauður blettur á honum. Fætur eru grængulir, augu dökk. Ungfugl er með dökkbrúnan gogg og húðlita fætur. Goggurinn lýsist með aldrinum og á öðrum vetri er mjótt dökkt band á honum fremst. Það sést einnig á fullorðnum fuglum á veturna. Gefur frá sér hávært og skerandi garg, hástemmdara en silfurmáfs, minnir á mjálm (heitir Mew Gull vestanhafs).

Stormmáfur er stærri en hettumáfur en minni og léttari á flugi en silfurmáfur, með hnöttóttara höfuð. Minnir einnig á ritu, en hún er með alsvarta vængbrodda og svarta fætur.

 

 

Lífshættir

Fæða og fæðuhættir svipaðir hettumáf og sjást þeir frændur oft saman í ætisleit: ormar, skordýr, skeldýr og fiskur, einnig úrgangur.

Verpur í litlum byggðum, stök pör eða með öðrum máfum, sérstaklega hettumáfum. Er mest nærri ströndinni en einnig inn til landsins, á áreyrum, í óshólmum, móum, á melum og sandi. Hreiðrið er í opnu landi, milli steina eða í gróðri, gert úr grasi, mosa og sinu. Eggin eru 2-3, álegan tekur 22-27 daga og ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Á veturna sést fuglinn helst í höfnum og við þéttbýli.

Stormmáfspar á Akureyri, karlfuglinn til vinstri.

Stormmáfshreiður við Þverá í Eyjafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stormmáfur er að nokkru farfugl. Hann er nýr landnemi, fyrsta þekkta varpið var við Akureyri 1936 og hann varp fyrst á Suðvesturlandi 1955. Aðalvarpstöðvarnar eru á Norðurlandi, mest í Eyjafirði, og svo kringum Kollafjörð og Hvalfjörð á Suðvesturlandi. Hann er smátt og smátt að dreifa sér um landið. Hluti fuglanna fer til Bretlandseyja á veturna en nokkur hundruð sjást á Suðvesturlandi, í Eyjafirði, á Skjálfanda, í Öxarfirði, á Austfjörðum og Suðausturlandi. Stofnstærðin er talin vera um um 1000 pör. Heimkynni stormmáfs eru víða um norðurhvel jarðar.

Vernd

Stormmáfur er alfriðaður. Hann var á eldri válista fugla vegna stofnsmæðar, en vegna fjölgunar er hann talinn úr hættu á nýjum válista frá 2018.

Þjóðtrú og sagnir

Stormmáfurinn er það nýr borgari í íslenskri fuglafánu, að engin þjóðtrú tengist honum beint. Erlendis er hann og aðrir máfar oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna. Á Bretagne skaga voru sálir sjómanna, sem farist höfðu á sjó, taldar taka sér búsetu í stormmáfum. Þeir vöruðu sjómenn við illviðrum.

Hringmáfur til vinstri og stormmáfur til hægri á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, báðir í vetrarbúningi. Hringmáfurinn er stærri, höfuðmeiri, með áberandi hring á gulum goggnum og minna hvítt milli gráa litarins á bakinu og svartra vængbrodda.
Hringmáfur á 1. vetri við Bakktjörn á Seltjarnarnesi.

Skyldar tegundir

Hringmáfur (Larus delawarensis) er árviss gestur hér landi frá Norður-Ameríku.

Hann sést á öllum tímum árs, en er þó algengastur á vorin, í apríl og maí. Hringmáfar dvelja stundum langdvölum á sama stað. Flestar athuganir eru á sunnanverðu landinu, frá Borgarfirði og austur á Höfn. Hringmáfur er mjög líkur stormmáfi, en ívið stærri, með höfuðlag stórra máfa. Enni er lægra og goggur stærri, vel afmarkaður svartur hringur fremst á skærugulum goggi á fullorðnum fuglum. Hringmáfur er með meira dökkt í vængbroddum, minni hvíta bletti og á sitjandi fugli er hvíti bletturinn milli svartra vængbrodda og grárra vængja minni en á stormmáfi. Ungfuglar eru svipaðir, ungir stormmáfar eru með svartan goggbrodd og á 2. vetri með hring, en þekkjast þó á höfuðlaginu. Algengasti ameríski máfurinn hér við land, sem og annars staðar í Evrópu.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Jarðlagahalli

Jarðlagahalli

Jarðlagahalli

Af hverju halla fjöllin svona á Austfjörðum? Þegar horft er til fjalla fyrir austan mætti halda að annar endi þeirra sé að sökkva ofan í jörðina. Það er raunar ekki fjarri lagi. Jarðlögin halla niður á við inn til landsins í átt að gosbeltinu. Skýringarinnar er að leita í flekahreyfingum og fergingu eldri hrauna undir nýrri hraun. Flekahreyfingar valda því að hraun sem koma upp í eldgosum á gosbeltinu færast jafnt og þétt út frá miðju landsins. Samtímis koma sífellt nýrri hraun upp á yfirborðið í eldgosum og þessi yngri hraun flæða yfir eldri hraunin og þrýsta þeim niður. Eldri hraunin fergjast því og sökkva undir nýrri hraun og fá á sig jarðlagahalla niður á við í átt að gosbeltinu. 

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Nýr Náttúrufræðingur kominn út

Út er komið 2.-3. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. Í heftinu er m.a. fjallað um nýlegar rannsóknir og kenningar á viðhofum ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna en einnig um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Þá er fjallað um friðrildi og tunglfisk en forsíðugreinin er um búsvæði og vernd vaðfugla á Íslandi. Nýja heftið er 80 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Vaðfuglalandið Ísland

Tómas Grétar Gunnarsson skrifar um Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Ísland er einstakt vaðfuglaland en þeir eiga margir í vök að verjast vegna hnignandi búsvæða. Skýringarinnar er að leita í hlýnandi loftslagi en einnig í breyttum búskaparháttum og aukinni skógrækt. Nokkrir vaðfuglar, t.d. heiðlóa og hrossagaukur, eru svokallaðar ábyrgðartegundir á Íslandi, sem þýðir að hátt hlutfall Evrópustofns tegundarinnar verpir hér eða fer um landið í miklum mæli á fartíma. Í greininni tekur Tómas Grétar saman niðurstöðu rannsókna á búsvæðum vaðfugla á Íslandi og setur fram tillögur um vernd þeirra, sem byggjast á núverandi þekkingu á búsvæðavali fuglanna.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Umferð um óbyggðir virðist hafa verið almennari á fyrstu öldum eftir landnám en síðar varð, bæði til Alþingis og til verstöðva landshluta á milli. Þar á meðal voru ferðir yfir Vatnajökul, en kólandi veðurfar 1300–1900, framgangur skriðjökla ásamt vaxandi beyg af útilegumönnum varð til þess að slíkar ferðir lögðust af og dró þá fljótt úr þekkingu manna á hálendinu. Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Sú fyrsta nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – minni jökull í grænna umhverfi.

Daniel Bruun ríður hér úr Maríutungum upp á Brúarjökul 3. ágúst 1901 í fylgd Elíasar Jónssonar á Aðalbóli. Teikning Daniel Bruun.

Ferðamennska um víðerni og óbyggðir

Ferðamennska á mannöld – Jarðsambönd ferðafólks við virkjanir nefnist grein eftir Edward H. Huijbens og fjallar um samband ferðafólks við virkjanir og víðerni. Edward greinir frá könnun meðal ferðafólks á Hengilssvæðinu sumarið 2017 og fjallar um þá þversögn að þrátt fyrir að gestir verði varir við ýmis ummerki mannvistar og virkjanaframkvæmda upplifa þeir svæðið sem víðerni og ósnortna náttúru.

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa um merkingu hugtakanna víðerni, óbyggðir og miðhálendi í fyrri grein sinni um Hálendið í hugum Íslendinga. Þær beina sjónum að uppruna þessara hugtaka og greina frá niðurstöðum spurningakönnunar sem gerð var meðal Íslendinga á afstöðu til þeirra. Niðurstöðurnar sýna að Íslndingar eru mun umburðarlyndari gagnvart mannvirkjum á víðernum en á miðhálendinu og í óbyggðum.

Á fjöllum. Ljósm. Anna Dóra Sæþórsdóttir.

Tunglfiskur, 32 cm langur. Ljósm. Jónbjörn Pálsson.

Tunglfiskar við Ísland

Ólafur S. Ástþórsson og Jónbjörn Pálsson hafa tekið saman gögn um fund tunglfiska við Ísland. Greinin nefnist Tunglfiskur (Mola mola) á Íslandsmiðum í ljósi veðurfarsbreytinga.

Tunglfiskar geta orðið yfir þrír metrar á lengd og tvö tonn að þyngd. Tunglfiskurinn lifir í hitabeltinu og í tempruðum hafsvæðum, en skráð hafa verið 32 tilfelli þar sem þennan sérkennilega fisk hefur rekið á fjörur, hann sést eða veiðst við Ísland allt frá 1845. Komunum fjölgaði verulega í upphafi 21. aldar og sérstaklega árið 2012 þegar 7 tilfelli voru skráð. Rímar það við hækkandi yfirborðshita í Norður-Atlantshafi en flesta tunglfiskana hefur rekið á fjörur á suður- og vesturströndinni þar sem aðflæði hlýs Atlantshafssjávar er mest.

Nokkrir  fiskar yfir 2 metrar á lengd hafa fundist við Ísland, t.a.m. rak einn á land 1. ágúst 2012 sem var 202 cm á lengd.

Rauðvínssólgin fiðrildi

Næturfiðrildi virðast sólgin í rauðvín ef marka má tilraun Björns Hjaltasonar, sem safnaði auðveldlega 8 tegundum þeirra á bönd sem legið höfðu í rauðvíni. Markmiðið var að ljósmynda fiðrildin og greina til tegunda. Grein Björns nefnist Fiðrildi næturinnar fönguð og í henni má fræðast betur um veiðiaðferðina.

Auk framangreinds er í 2.–3. hefti Náttúrufræðingsins skýrsla stjórnar og reikningar Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið 2019, ritdómur um bók Helga Hallgrímssonar, Vallarstjörnur, einkennisplöntur Austurlands og leiðari sem ritstjóri skrifar í tilefni af 90. árgangi Náttúrufræðingsins.

Aðmíráll sem settist á rauðvínsband í september 2019. Ljósm. Björn Hjaltason.
Mars eða Venus?

Mars eða Venus?

Mars eða Venus?

 

Þessa dagana sjást reikistjörnurnar Venus og Mars á himinhvolfinu en þó ekki samtímis. 

Mars er núna óvenju nálægt jörðinni, og skín rauðbjartur á austurhimninum á kvöldin. Rauði bjarminn stafar af yfirborði plánetunnar sem er rauðleitt af völdum járnríks yfirborðsjarðvegs. En vissir þú að á Mars er stærsta eldfjall sólkerfisins? Það er hið risavaxna Ólympusfjall, sem er þrisvar sinnum hærra en Everest og jafnstórt og Ísland að flatarmáli. 

Venus, tvíburasystir Jarðar, sést hins vegar núna sem morgunstjarna. Það gerist á tæplega tveggja ára fresti og sést Venus þá hátt á austurhimni við sólarupprás. Venus er svipuð að stærð og Jörðin en yfirborðið er afar heitt og ólífvænlegt. 

Við mælum með Stjörnufræðivefnum sem geymir ítarlegan og skemmtilegan fróðleik um sólkerfið. 

Ljósmynd: Þorfinnur Sigurgeirsson.