Grímsvötn

Grímsvötn

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Grímsvötn. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Grímsvötn

Grímsvötn er megineldstöð sem er staðsett vestan við miðju Vatnajökuls og er að mestu hulin jökli. Eldstöðvakerfi Grímsvatna samanstendur af megineldstöðinni og sprungusveimi, og er um 100 km að lengd og 20 km að breidd. Kerfið er hluti af Austurgosbeltinu og teygir sig til suðvesturs með Lakagígum. Eldstöðin er sú virkasta á landinu og er vitað um rúmlega 60 gos frá henni á sögulegum tíma, en Grímsvötn eru einnig eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins. Í toppi megineldstöðvarinnar er askja og undir íshellunni er stöðuvatn sem tæmist og endurnýjast með reglubundnum hætti vegna jarðhita, eldgosa og jökulhlaupa. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Grímsvötn eru merkt með rauðum punkti á kortið.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Grímsvötn í Vatnajökli. Úr lofti má sjá öskjuna í toppi Grímsvatna ásamt skörpum suður barminum sem er Grímsfjall. (Gervitunglamynd frá USGS og NASA).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Askjan í toppi Grímsvatna eftir að gosi lauk í maí 2011. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Eldstöðvakerfi Grímsvatna liggur að mestu undir Vatnajökli en hluti þess nær út fyrir jökulinn til suðvesturs, með Austurgosbeltinu í átt að Mýrdalsjökli. Eldvirkni kerfisins sem liggur undir jökli einkennist af basískum sprengigosum, þar sem viðkoma bráðins jökulíss við kviku sem kemur upp ýtir undir sprengivirkni og framleiðslu á gjósku. Aftur á móti einkennist eldvirkni kerfisins utan við jökulinn af basískum flæðigosum.

Jökulhlaup eru algeng samfara eldgosum úr Grímsvötnum þar sem mikið magn jökulíss getur bráðnað og fyllt öskjuna af vatni. Ef þrýstingurinn verður nægilega mikill lyftist íshellan yfir öskjunni sem veldur því að gríðarlegt magn af vatni brýst skyndilega fram. Af þessari ástæðu er stöðugt eftirlit með öskjunni og eldstöðinni í Grímsvötnum. Á Grímsfjalli er vefmyndavél sem beinist að öskjunni og einnig er GPS mælir á íshellunni. Vatnshæð og rafleiðni eru mæld í Gígjukvísl.

 

Ár Gerð eldgoss
2011 Sprengigos
2004 Sprengigos
1998 Sprengigos
1996 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar (Gjálp)
1984 Sennilega smágos
1983 Sprengigos
1938 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar
1934 Sprengigos
1933 Smágos
1922 Sprengigos
1902 Sprengigos

 

Eitt frægasta eldgos úr Grímsvatnakerfinu eru Skaftáreldar, en í þeim mynduðust Lakagígar. Eldgosið stóð yfir í átta mánuði, það hófst 8. júní 1783 og lauk því 7. febrúar 1784. Þetta gos er annað stærsta flæðigos á sögulegum tíma á eftir Eldgjárgosinu 934–940. Hraunið sem myndaðist í Skaftáreldum er um 14,7 km3 að rúmmáli, til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli. Skaftáreldar hófust með stuttu sprengigosi á lítilli sprungu sem olli því að hraun fór að renna í Skaftá. Fjórum dögum seinna náði hraunið niður á láglendið, 35 km í burtu. Hraunið hélt áfram að renna þangað til eldgosinu lauk og fór allt að 65 km frá upptökum. Gígaröðin sem myndaðist í Skaftáreldum er 27 km löng og liggur norðaustan og suðvestan við móbergsfjallið Laka, sem hún er kennd við. Sjálft fjallið Laki er þó miklu eldra en Lakagígar.

 

Skaftáreldum fylgdi hörmungartíð sem er þekkt sem móðuharðindin, mestu náttúruhamfarir Íslandssögunnar. „Móðan“ stafaði af mikilli framleiðslu á brennisteinsgufu frá eldgosinu en sú mengun leiddi til hungursneyðar og uppskerubrests um allt land sem og á meginlandi Evrópu og víðar um heim. Agnir úr eldgosinu hindruðu sólarljósi á leið til jarðar, veðurfar kólnaði og var veturinn eftir Skaftárelda einn sá harðasti sem hefur verið skráður í Evrópu og Norður-Ameríku. Loftslagsáhrifin frá Skaftáreldum stóðu yfir í 2–3 ár.

Síðast gaus í Grímsvötnum 21.–28. maí 2011. Um var að ræða sprengigos í öskju Grímsvatna undir Vatnajökli, þar sem megineldstöð kerfisins er. Þetta gos var öflugra en eldgosið í Grímsvötnum 2004 og í Eyjafjallajökli 2010. Gosmökkurinn náði mest 20 km hæð og sendi fíngerða ösku út í andrúmsloftið. Askan raskaði flugumferð en þar sem hún var grófari en fínasta askan úr Eyjafjallajökli, hafði hún ekki eins mikil áhrif.

Virkni íslenskra eldstöðva er táknuð með litakóða sem segir til um líkurnar á eldgosi í þeirri tilteknu eldstöð. Grímsvötn er eina eldstöðin sem er nú merkt með gulum lit, en það merkir að virkni hennar sé meiri en telst venjulegt. Algengast er að eldstöðvar séu merktar með grænum lit en þá bendir ekkert til þess að eldgos sé í vændum. Í maí 2020 voru vísbendingar um að Grímsvötn væru að búa sig undir eldgos þar sem aflögunarmælingar bentu til þess að kvika hefði safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfinu væri að aukast.

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Gosmökkurinn við eldgosið í Grímsvötnum 2011 var umfangsmikill og náði mest 20 km hæð. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Nú þegar komið er fram í nóvember hefur þó ekkert gerst í Grímsvötnum ennþá en algengt er að það líði 5–10 ár á milli eldgosa í eldstöðinni. Í september á þessu ári var litakóðinn færður yfir á gult þar sem virknin hefur verið að stigmagnast. Því aukast sífellt líkurnar á að Grímsvötn gjósi á næstu mánuðum eða árum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Grímsvatnagosið 2011 var öflugt og truflaði flugumferð um tíma. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Gosmökkurinn frá eldgosinu í Grímsvötnum 2004. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Ítarefni

Magnús T. Guðmundsson & Guðrún Larsen. 2019. Grímsvötn. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 26. október 2020 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=GRV#.

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson. 2013. Grímsvötn. Bls. 235–251 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Magnús T. Guðmundsson & Helgi Björnsson. 1991. Eruptions in Grímsvötn, Vatnajökull, Iceland, 1934–1991. Jökull 41. 21–45.

Veðurstofa Íslands. 2020. Eldfjöll – litakóði. Sótt 10. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/eldgos/.

Veðurstofa Íslands. 2011. Gos í Grímsvötnum: Fylgst með stöðu mála. Sótt 4. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/2179.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783–1785. Bulletin of Volcanology 55. 233–263.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783–1784 Laki eruption: A review and reassessment. Journal of Geophysical Research 108. 1–29.

Hreindýr

Hreindýr

Hreindýr (Rangifer tarandus)


Vissir þú að við lok síðustu ísaldar voru hreindýr útbreidd um alla Evrópu en fluttu sig smám saman nær norðurskautinu eftir því sem jökullinn hopaði? Hreindýr eru einstaklega vel aðlöguð að kulda og frosti og þola vel frost niður í -40°C. Skýringarinnar er að leita í feldi dýranna sem er þrefalt þéttari en feldur annarra hjartardýra. Hárin eru tvenns konar; utar eru lengri þekjuhár en styttri þelhár nær húðinni. Þelhárin eru loftfyllt að hluta en það eykur einangrun og veitir gott flot á sundi.  

Ljósmyndir Gaukur Hjartarson. 

Örn við Öxará

Örn við Öxará

Haförninn var áður við Þingvallavatn eins og örnefnið Arnarfell við austurhluta vatnsins vitnar um. Þó örnum hafi fjölgað verulega þá eru þeir enn sjaldséð sjón á Lögbergi. Ljósm. TSJ.

Örn við Öxará

 Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi.  Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og  Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms. 
Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér. 

Haförninn settist beggja vegna árinnar og skoðaði aðstæður á riðunum. Ljósm. TSJ.
Örninn settist í klettana í Almannagjá en ernir sitja löngum stundum grafkyrrir og stara fránum augum yfir veiðilendur sínar. Ljósm. SÞT.
Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Eins og við skýrðum frá í síðustu viku hefur árbotninn verið þéttsetinn urriðum í leit að heppilegasta makanum allan októbermánuð. Meira um þingvallaurriðan og hrygninguna í Öxarárstofninum hér.

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

Stormmáfur

Stormmáfur

Stormmáfur (Larus canus)

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þetta eru dýraætur sem lifa aðallega á sjávarfangi en einnig á skordýrum, úrgangi, fuglsungum, eggjum og fleiru. Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar, en farflug kríunnar er hið lengsta sem þekkist meðal fugla. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið fljótlega eftir klak. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).
Fullorðinn stormmáfur á Akureyri.
Fullorðinn stormmáfur í vetrarbúningi á Reykjavíkurtjörn.
Stormmáfur á 1. vetri við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Útlit og atferli

Stormmáfur er ekki ólíkur silfurmáfi en mun minni, er á stærð við ritu. Hann er ljósgrár að ofan, vængbroddar svartir með hvítum doppum, annars hvítur á fiður. Höfuð er brúnflikrótt á veturna, líkt og hjá stórum máfum. Ungfugl er grábrúnflikróttur með svartan stéljaðar, brúnt bak verður blágrátt strax á fyrsta hausti. Fuglar á fyrsta vetri eru hvítari á höfði og að neðan, með grátt bak og axlafjaðrir, yfirvængir eru brúndröfnóttir með dökkum flugfjöðrum. Þeir lýsast síðan og á öðrum vetri eru þeir svipaðir fullorðnum fuglum, hafa þá misst svarta stélbandið en handflugfjaðrir og vængþökur þeirra eru dekkri.

Goggur er grannur og fremur stuttur, gulleitur, enginn rauður blettur á honum. Fætur eru grængulir, augu dökk. Ungfugl er með dökkbrúnan gogg og húðlita fætur. Goggurinn lýsist með aldrinum og á öðrum vetri er mjótt dökkt band á honum fremst. Það sést einnig á fullorðnum fuglum á veturna. Gefur frá sér hávært og skerandi garg, hástemmdara en silfurmáfs, minnir á mjálm (heitir Mew Gull vestanhafs).

Stormmáfur er stærri en hettumáfur en minni og léttari á flugi en silfurmáfur, með hnöttóttara höfuð. Minnir einnig á ritu, en hún er með alsvarta vængbrodda og svarta fætur.

 

 

Lífshættir

Fæða og fæðuhættir svipaðir hettumáf og sjást þeir frændur oft saman í ætisleit: ormar, skordýr, skeldýr og fiskur, einnig úrgangur.

Verpur í litlum byggðum, stök pör eða með öðrum máfum, sérstaklega hettumáfum. Er mest nærri ströndinni en einnig inn til landsins, á áreyrum, í óshólmum, móum, á melum og sandi. Hreiðrið er í opnu landi, milli steina eða í gróðri, gert úr grasi, mosa og sinu. Eggin eru 2-3, álegan tekur 22-27 daga og ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Á veturna sést fuglinn helst í höfnum og við þéttbýli.

Stormmáfspar á Akureyri, karlfuglinn til vinstri.

Stormmáfshreiður við Þverá í Eyjafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stormmáfur er að nokkru farfugl. Hann er nýr landnemi, fyrsta þekkta varpið var við Akureyri 1936 og hann varp fyrst á Suðvesturlandi 1955. Aðalvarpstöðvarnar eru á Norðurlandi, mest í Eyjafirði, og svo kringum Kollafjörð og Hvalfjörð á Suðvesturlandi. Hann er smátt og smátt að dreifa sér um landið. Hluti fuglanna fer til Bretlandseyja á veturna en nokkur hundruð sjást á Suðvesturlandi, í Eyjafirði, á Skjálfanda, í Öxarfirði, á Austfjörðum og Suðausturlandi. Stofnstærðin er talin vera um um 1000 pör. Heimkynni stormmáfs eru víða um norðurhvel jarðar.

Vernd

Stormmáfur er alfriðaður. Hann var á eldri válista fugla vegna stofnsmæðar, en vegna fjölgunar er hann talinn úr hættu á nýjum válista frá 2018.

Þjóðtrú og sagnir

Stormmáfurinn er það nýr borgari í íslenskri fuglafánu, að engin þjóðtrú tengist honum beint. Erlendis er hann og aðrir máfar oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna. Á Bretagne skaga voru sálir sjómanna, sem farist höfðu á sjó, taldar taka sér búsetu í stormmáfum. Þeir vöruðu sjómenn við illviðrum.

Hringmáfur til vinstri og stormmáfur til hægri á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, báðir í vetrarbúningi. Hringmáfurinn er stærri, höfuðmeiri, með áberandi hring á gulum goggnum og minna hvítt milli gráa litarins á bakinu og svartra vængbrodda.
Hringmáfur á 1. vetri við Bakktjörn á Seltjarnarnesi.

Skyldar tegundir

Hringmáfur (Larus delawarensis) er árviss gestur hér landi frá Norður-Ameríku.

Hann sést á öllum tímum árs, en er þó algengastur á vorin, í apríl og maí. Hringmáfar dvelja stundum langdvölum á sama stað. Flestar athuganir eru á sunnanverðu landinu, frá Borgarfirði og austur á Höfn. Hringmáfur er mjög líkur stormmáfi, en ívið stærri, með höfuðlag stórra máfa. Enni er lægra og goggur stærri, vel afmarkaður svartur hringur fremst á skærugulum goggi á fullorðnum fuglum. Hringmáfur er með meira dökkt í vængbroddum, minni hvíta bletti og á sitjandi fugli er hvíti bletturinn milli svartra vængbrodda og grárra vængja minni en á stormmáfi. Ungfuglar eru svipaðir, ungir stormmáfar eru með svartan goggbrodd og á 2. vetri með hring, en þekkjast þó á höfuðlaginu. Algengasti ameríski máfurinn hér við land, sem og annars staðar í Evrópu.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Jarðlagahalli

Jarðlagahalli

Jarðlagahalli

Af hverju halla fjöllin svona á Austfjörðum? Þegar horft er til fjalla fyrir austan mætti halda að annar endi þeirra sé að sökkva ofan í jörðina. Það er raunar ekki fjarri lagi. Jarðlögin halla niður á við inn til landsins í átt að gosbeltinu. Skýringarinnar er að leita í flekahreyfingum og fergingu eldri hrauna undir nýrri hraun. Flekahreyfingar valda því að hraun sem koma upp í eldgosum á gosbeltinu færast jafnt og þétt út frá miðju landsins. Samtímis koma sífellt nýrri hraun upp á yfirborðið í eldgosum og þessi yngri hraun flæða yfir eldri hraunin og þrýsta þeim niður. Eldri hraunin fergjast því og sökkva undir nýrri hraun og fá á sig jarðlagahalla niður á við í átt að gosbeltinu.